Rafrænt verðmat fasteigna hjá e-fasteignum er hugbúnaðarútreikningur sem byggir á traustum gögnum um nýleg fasteignaviðskipti í nágrenni við eignina, með greiningu á sambærilegum eignum og leiðréttingu fyrir markaðsþróun. Verðmatið veitir þannig marktæka nálgun á hugsanlegt markaðsverð fasteignar að teknu tilliti til stærðar, staðsetningar og annarra lykilþátta.
Hvernig virkar rafrænt verðmat?
- –Upplýsingasöfnun: Hugbúnaðurinn sækir grunnupplýsingar um fasteignina frá m.a. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og Þjóðskrá Íslands. Gögn eru sótt svo sem landfræðileg staðsetning (hnit), flatarmál (einflm), tegund eignar og byggingarár.
- –Leit að sambærilegum eignum: Leitað er að fasteignum í næsta nágrenni sem falla innan skilgreinds radíuss og sölutíma (sl. 5 ár). Þessar eignir þurfa að vera með sambærilega tegund og byggingarár (±15 ár).
- –Aðlögun við markaðsaðstæður: Öll kaupverð eru leiðrétt með vísitölu fasteignaverðs (fasteignavísitala) þannig að þau endurspegli verðlag á matstíma. Með þessu næst samanburðarhæf verðþróun yfir tíma.
- –Sía á gögn með frávikum: Gögn úr nærliggjandi eignum sem liggja utan ±2 staðalfrávika frá meðaltali eru útilokuð úr mati. Þannig er tryggt að útlagar hafi ekki óeðlileg áhrif á útreikning.
- –Sala á umræddri fasteign: Ef eignin hefur verið seld áður, er reiknað meðalfermetraverð úr þeim sölum, að því gefnu að verðið falli innan ±1,33 staðalfráviks frá sambærilegum eignum í hverfinu. Ef það stenst þessi skilyrði telst eigin sala marktæk. Ef marktækar sölur á eigninni sjálfri finnast þá fá þessar sölur hærra vægi í verðmati gagnvart öðrum sölum í nágrenninu.
- –Nýleg sala: Ef sala hefur átt sér stað á eigninni innan síðustu 2 mánaða er hún notuð með hærra vægi á móti eldri eigin sölum.
- –Niðurstaða verðmats: Áætlað fermetraverð er margfaldað með flatarmáli eignarinnar til að fá heildarverðmat.
Mikilvægar upplýsingar
- Rafrænt verðmat byggist á sögulegum gögnum og tölfræðilegri greiningu.
- Þetta er viðmiðunarverðmat en ekki staðfest mat frá löggiltum fasteignasala.
- Verðmatið tekur ekki mið af einstökum sérkennum eignarinnar, svo sem ástandi, útsýni eða innréttingum.
Fyrir nákvæmara verðmat er mælt með að leita til löggilts fasteignasala.